Sunday, June 28, 2009

Útrásarvíkingurinn á Álftanesi

Grein bæjarstjórans í Mogga frá 22. júní sl. var andsvar hans við grein minni í Mogga þann 19. júní sl. Ég sá ástæðu til að svara í nokkrum orðum þessari grein.

Svar grein mín var birt í Mogga 27. júní sl. Hún er orðrétt hér:


Ég sé ástæðu til að koma ábendingu að varðandi svar bæjarstjórans á Álftanesi í Morgunblaðinu sl. mánudag. En hann var víst að svara grein minni frá því 19. júní sl.

Bæjarstjórinn skautar yfir alvarlegustu efnisatriðin í grein minni með skætingi, m.a. með skrípalegum túlkunum á mínum skrifum. Hann gerir ámátlega tilraun til þess að draga fjöður yfir þá staðreynd að ,,útrás” bæjarstjórans á yfirstandandi kjörtímabili, klikkaði.

Það blasti við að loknum kosningum 2006 einstakt tækifæri til þess að búa svo um hnútana á Álftanesi að hagsæld íbúa og þjónusta við þá myndi aukast. Þessu frábæra tækifæri klúðruðu fulltrúar Á – listans, svo eftirminnilega. Það þarf einungis að bera saman ársreikninga 2005, 2006, 2007 og 2008 til þess að átta sig mjög vel á þróun mála á Álftanesi.

Það einkennilegasta í tilskrifum bæjarstjórans er að hann hafnar því að Á – listi beri ábyrgð á alvarlegri stöðu bæjarsjóðs. Hann segist einungis hafa verið að hreinsa upp eftir fyrri bæjarstjórn! Ha, hvað – í heil þrjú ár?

Bæjarstjóri segir vegna Bessans: ,,eru bæjaryfirvöld að leysa úr gömlu deilumáli frá stjórnartíð Guðmundar, þegar hann seldi verslunarlóð Bessans til annarra aðila og hugðist þannig með vafasamri stjórnsýslu fara fram með valdhroka gegn eigendum Bessans.” Ja hérna, hvað í ósköpunum á maðurinn við? Er hann að meina að lóð Bessans hafi verið seld öðrum? Tæplega getur bæjarfélagið selt lóð, sem það á ekki! Eða er hann að meina að lóð, sem Bessinn ætlaði sér annars staðar á miðsvæðinu, hafi verið seld öðrum? Þetta er fráleitt og alger tilbúningur.

Það var ekkert ,,gamalt deilumál” í gangi varðandi Bessann á síðasta kjörtímabili. Eigandi Bessans hélt því fram með aðstoð lögmanns að hann væri órétti beittur, það voru engar deilur. Hins vegar er það bísna ógeðfellt að bæjarstjóri beiti sér fyrir samningum við eiganda Bessans á grundvelli ósvífinna tilburða og ,,aðstoðar” eigandans í kosningabaráttu Á – listans vorið 2006. Það kalla ég siðblindu og spillingu. Þetta mál liggur ljóst fyrir og er enginn ,,arfur frá stjórnartíð Guðmundar.” Hér er á ferðinni purrkunarlaust óþverramál, þar sem bæjarstjóri fer bísna frjálslega með almannafé á fölskum forsendum.Lokaorð greinar bæjarstjóra er því miður ekki svara verð. Bæjarstjórinn hefur gjarnan þennan háttinn á í áróðri sínum, til að villa um fyrir Álftnesingum.

Guðmundur

No comments:

Post a Comment