Thursday, January 7, 2010

Tveir umdeildir búa á Álftanesi

Nú hefur forseti Íslands sett þjóðfélagið á annan endann, með tilkynningu sinni um að skrifa ekki undir lög frá alþingi um Icesafe.

Hvernig stendur á því að forsætisráðherra hlerar ekki forsetann í atganginum á alþingi undanfarna mánuði vegna þessa máls, um hvað hann muni gera, þegar sama málið kemur öðru sinni á hans borð? Í ljósi þess hvernig hann afgreiddi fyrri lögin um Icesafe.

Hvernig stendur á því að forseti tilkynnir ekki forsætisráðherra fyrirfram í trúnaði um sína ákvörðun, til þess að færi hefði gefist til að undirbúa yfirveguð viðbrögð til þjóðarinnar og innlendra og erlendra fréttastofa, þannig að allavega lægi fyrir sjónarmið ríkisstjórnarinnar? Forseti hefði mátt geta sér til um að ákvörðun hans um að synja lögunum staðfestingar myndi valda nokkrum usla.

Alþingi afgreiddi Icesafe lög öðru sinni 30. desember sl.

Forseti hefur marglýst yfir því að til þess gæti komið að hann beitti þessu umdeilda ákvæði í stjórnarskránni. Voru skilaboðin ekki nógu skýr frá honum, til þess að alþingi væri ljóst að bregðast þyrfti við og skýra lög hvað þetta umdeilda atriði varðaði? Það hafa liðið um 66 ár og að því er virðist ekki verið ástæða til að breyta lögunum, hvað þetta atriði varðar.

Hvernig má það gerast að forseti gefi sér á líkum að meirihluti sé á alþingi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesafe málið? Alþingi hafnaði fyrir nokkrum dögum að slík atkvæðagreiðsla færi fram. Einnig gefur forseti sér vafasamar forsendur varðandi nafnalista Indefence hópsins. En komið er í ljós að einhverjir í þeim hópi, sem skráðu sig eða voru skráðir á þann lista, héldu að með því væri verið að mæla með því að samningi um greiðslur vegna Icesafe yrði hafnað. En svo var vissulega ekki uppi á teningnum, hvað varðaði forsendur þessa umdeilda lista.

Á Álftanesi búa nú um stundir tveir umdeildir menn.

Hinn er sá sem setti bæjarsjóðinn okkar á hliðina, á innan við þremur árum. Þar er ég að tala um frekar illa meðferð á almanna fé.

Atburðarrásin frá í júní 2006 hefur verið lyginni líkust á Álftanesi. Sá sem ber mesta ábyrgð á hruni bæjarsjóðs Álftaness, sýndi af sér dæmalausan dómgreindarskort.

Þeir sem honum fylgdu áttuðu sig því miður of seint, skaðinn var skeður.

Nú er unnið að því hörðum höndum að lágmarka skaðann, með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Ég er bjartsýnn á að Álftnesingar sjái fram á betri tíð.

Það merkilega er hve mikil líkindi eru með óhófi og hruni íslenska kerfisins undanfarinn áratug undir skilningarvitum fulltrúa þjóðarinnar á alþingi annars vegar og svo hins vegar óhófi og hruni fjárhags Álftaness.

Á Álftanesi glímum við við eigið Icesafe. Spurning í okkar tilfelli er, hver á að borga óreiðuna?

Hér er tilvitnun í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisfélagsins á fundi bæjarstjórnar Álftaness 28. ágúst 2006:

,,Reyndar er það svo að margar gjörðir Á lista frá kjördegi í maí sl. virðast miða að því að leggja fjárhag bæjarfélagsins í rúst á sem skemmstum tíma, svo hart er keyrt. Fulltrúar D lista frábiðja sér slík vinnubrögð sem þessi og lýsa fullri ábyrgð á hendur fulltrúum Á lista.“

Guðmundur

No comments:

Post a Comment