Bæjarstjóri svarar grein minni í Morgunblaðinu 22. júní sl.
Greinin mín í Mogga frá 19. júní sl. er hér á blogginu.
Með því að nafngreina mig í fyrirsögn ,,svargreinarinnar“ – þá reiðir bæjarstjóri hátt til höggs, svo líkur séu á að ég ,,gantist“ ekki frekar með erfiða fjárhagsstöðu Álftaness. Með því að nafngreina mig í fyrirsögninni, er ljóst að bæjarstjóri er reiður, þolir ekki réttmæta gagnrýni á ónýtar og fífldjarfar áætlanir fulltrúa Á – listans á árunum 2006, 2007 og 2008, óráðssíu og sukk.
Ég vil gera grein fyrir afstöðu minni til skrifa bæjarstjóra í Mogga þann 22. júní sl.
Ansi er hún ný rýr í roðinu grein bæjarstjórans, þar sem hann velur að skuata hjá megin efnisatriðum í minni grein og grípur til skætings í staðinn. Það er reyndar hans háttur, hvort sem um er að ræða greinaskrif sem þessi eða mögnuð ræðuhöld á bæjarstjórnarfundum.
Bæjarstjóri segir ,,gantast Guðmundur … með erfiða stöðu bæjarsjóðs“ ,,hann kennir stjórnleysi núverandi meirihluta Á – lista um og gerir sem minnst úr afleiðingum efnahagshrunsins."
Við lestur greinar minnar er auðvelt að sjá að ég hvorki gantast með erfiða stöðu fjármála né segi eða gef í skyn að alvarleg staða fjármála bæjarfélagsins nú sé núverandi meirihluta að kenna. Ég segi einfaldlega að þegar fjármálahrunið reið yfir, hafi fjárhagstaða bæjarsjóðs þá þegar verið orðin mjög erfið, vegna stefnu Á – listans.
Ég er einfaldlega að lýsa vonbrigðum mínum með fífldjarfar og dýrar áætlanir fulltrúa Á – lista, sem skila íbúum hræðilegri fjárhagsstöðu. Slík háttsemi, sem þeirra allt frá kjördegi 2006, eru mikil vonbrigði og ber ekki vott um ráðdeild. Það sýnir samanburður ársreikninga 2005, 2006, 2007 og 2008.
Bæjarstjóri segir að ég hafi lagt til að ,,Sjálfstæðisfélagið á Álftanesi bjóði ekki fram næsta vor undir merkjum D – listans, heldur opni listann fyrir fólki sem hafnar aðild að flokknum.“ Þetta er afar sérkennileg túlkun á pistli, sem ég setti hér á bloggið í janúar og fjallar um þá skoðun mína að æskileg sé umræða um að Álftnesingar hafi val um það hvort viðkomandi sé í Sjálfstæðisfélaginu og jafnframt í Sjálfstæðisflokknum. Þessi túlkun bæjarstjóra er út í hött, eins og hægt er að skoða með lestri þess pistils, sem hægt er að finna í janúarskrá bloggsins.
Bæjarstjóri kemst að þeirri niðurstöðu að skuldir ,,D – lista“ á miðju ári 2006 hafi verið 1.500 milljónir. Eftir kosningar vorið 2006 létu fulltrúar Á – lista ,,gera úttekt“ á stöðu bæjarsjóðs. Sú úttekt var í meira lagi skrautleg og að hætti Á - listans. Eðlilegt er að benda á fjárhagsstöðu í ársreikningi 2005, en þá eru skuldir bæjarsjóðs um 950 milljónir.
Bæjarstjóri segir að eina lánið, sem tekið var á árinu 2006 sé 100 milljóna kr. lán vegna endurgreiðslu til Eirar, sem hætt hafi við framkvæmdir á miðsvæðinu. Það rétta er að bæjarstjóri flæmdi Eir frá undirrituðum áformum sínum, því var útlagt fé Eirar endurgreitt. Hann segir jafnframt að síðar hafi lóðin verið seld fyrir þrefalt hærra verð. Lóðin var að hluta sett inn í samninga við Búmenn á yfirverði, til þess að góð staða myndist í ársreikningi. Síðan leigir bæjarfélagið upphæðina til baka með byggingarkostnaði. Er það fjármálasnilld?
Bæjarstjóri segir að engin lán hafi verið tekin á árinu 2007. Hið rétta er að íþróttamiðstöðin var seld fyrir um 600 milljónir, þar af fóru um 200 milljónir í hlutafé í Fasteign. Síðar var Fasteing seld lóðin undir íþróttamiðstöðinni á 200 milljónir og allt það fé sett í hlutafé í Fasteign. Ég tel að þessar 400 hundruð milljónir í hlutafé séu lítils virði í dag. Afrakstur sölu íþróttahússins kr. 400 hundruð milljónir fóru í hreina og klára eyðslu. Fulltrúar Á – lista sögðu reyndar að lækka ætti skuldir sem næmi þessum 400 milljónum. Skuldir á árinu 2007 lækkuðu einungis um 50 milljónir, restinni var eytt.
Hönnun sundlaugarinnar er auðvitað kapítuli út af fyrir sig, en auðvitað töldu fulltrúar D – lista að gætt yrði ráðdeildar við hönnun verksins. Það var öðru nær, niðurstaðan er vissulega glæsilegt mannvirki, sem við skulum vona að íbúar hafi áhuga á að sækja um ókomna tíð. En að hamast væri í því að gera dæmið eins dýrt og mögulegt var, það datt mér og mínum félögum ekki í hug. Og enn skal bætt við, aukaverk eru upp á tugi milljóna, sem að mestu eða öllu leiti falla á bæjarsjóð og hækkar um leið enn meir leigugjöld af herlegheitunum.
Bæjarstjóri heldur því fram að skuldir bæjarsjóðs í lok árs 2008 sé fyrri bæjarstjórnar um að kenna! Ansans ári er þetta sérkennileg yfirlýsing. Halda mætti að þau þrjú ár sem að baki eru hafi gufað upp og þá gæti einhver haldið að bæjarstjóri vildi helst að tímabil Á – listans væri þurrkað út! Séu ársreikningar 2005, 2006, 2007 og 2008 bornir saman, kemur hið sanna í ljós.
Bæjarstjóri segir: ,,Það þyrfti samsvarandi færslu á móti eigna megin, ef túlka á skuldbindingu gagnvart Fasteign vegna íþróttamiðstöðvar og sundlaugar sem skuld.“ Það er auðvitað út í hött, því að eftir 30 ára ,,leigutímabil“ Fasteignar, þarf að semja um málalok. Því er skuldin fullgild og að tala um að sú skuld sé utan efnahags, er afar ómerkileg túlkun.
Bæjarstjórinn segir mig ,,gagnrýna áform um byggingu þjónustuhúss fyrir eldri borgara.“ Ég tel að fjármögnun sé á fölskum forsendum, þar sem megin hluta framkvæmdarinnar á að nota fyrir skrifstofur bæjarfélagsins með láni frá Íbúðalánasjóði á grundvelli framkvæmdar fyrir eldri íbúa. Leigusamningur er gerður við Búmenn til 50 ára. Staða bæjarsjóðs er slík að vafasamt er að færa rök fyrir svo stórri framkvæmd nú um stundir.
Bæjarstjóri segir vegna Bessans: ,,eru bæjaryfirvöld að leysa úr gömlu deilumáli frá stjórnartíð Guðmundar, þegar hann seldi verslunarlóð Bessans til annarra aðila og hugðist þannig með vafasamri stjórnsýslu fara fram með valdhroka gegn eigendum Bessans.” Ja hérna, hvað í ósköpunum á maðurinn við? Er hann að meina að lóð Bessans hafi verið seld öðrum? Tæplega getur bæjarfélagið selt lóð, sem það á ekki! Eða er hann að meina að lóð, sem Bessinn ætlaði sér annars staðar á miðsvæðinu, hafi verið seld öðrum? Þetta er fráleitt og alger tilbúningur. Það var ekkert ,,gamalt deilumál” í gangi varðandi Bessann á síðasta kjörtímabili. Eigandi Bessans hélt því fram með aðstoð lögmanns að hann væri órétti beittur, það voru engar deilur. Hins vegar er það bísna ógeðfellt að bæjarstjóri beiti sér fyrir samningum við eiganda Bessans á grundvelli ósvífinna tilburða og ,,aðstoðar” hans í kosningabaráttu Á – listans vorið 2006. Það kalla ég siðblindu og spillingu. Þetta mál liggur ljóst fyrir og er enginn arfur frá ,,stjórnartíð Guðmundar.” Hér er á ferðinni purrkunarlaust óþverramál, þar sem bæjarstjóri fer bísna frjálslega með almannafé á fölskum forsendum.
Lokaorð greinar bæjarstjóra er því miður ekki svara verð. Bæjarstjórinn hefur gjarnan þennan háttinn á í áróðursrugli sínu, til að villa um fyrir Álftnesingum.
Þeir sem hafa áhuga á að rifja upp veruleika síðasta kjörtímabils, er bent á fundargerðir bæjarstjórnar frá síðasta kjörtímabili. Maður lifandi, þá voru nú ekki sparaðir ,,hinir stóru hnífar” fulltrúa Á – listans.
Staðreyndin er sú að fulltrúar Á – lista glutruðu niður opnu tækifæri til góðra verka með kolvitlausum áætlunum sínum áranna 2006, 2007 og 2008, til stórkostlegs tjóns fyrir íbúa Álftaness. Stærsta klúður fulltrúa Á – listans var að taka úr sambandi flest öll fyrirheit og áætlanir fyrri bæjarstjórnar, án þess að laga þær áætlanir að heildarmynd og hagsmunum íbúnna. Því fór sem fór, því miður.
Guðmundur
Tuesday, June 23, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Manninn BURT ÚR STÓLI ( BÆ BÆ ( JARSTJÓRA ) OG OPNA SPJALLIÐ ,,EN HANN ÞORIR ÞAÐ EKKI ??????
ReplyDelete