Óska eftir stuðningi Álftnesinga í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisfélagsins á Álftanesi á morgun laugardag.
Það sem er mest um vert núna er að vinna á sem bestan hátt úr hrikalegri fjárhagsstöðunni.
"Verjum sjálfstætt samfélag á Álftanesi við erfiðar aðstæður"
Því fer fjarri að ég hafi gert mér í hugarlund á sínum tíma, þegar ég gaf kost á mér til starfa fyrir samfélagið okkar í hreppsnefnd og síðan bæjarstjórn, að hægt væri að bjóða upp á slíkar trakteringar, sem okkur íbúunum hefur verið boðið upp á síðustu misserin.
Að hér væri hægt að setja heilt bæjarfélag á vonarvöl á svo skömmum tíma, sem raun ber vitni, er með miklum ólíkindum.
Viðvörunarorð mín og minna félaga voru sem vindur í eyrum og ekkert með þau gert.
Staðreyndirnar hafa blasað við lengi, en það var ekki fyrr en sl. haust að hægt var að taka á vandanum með raunsæjum hætti, eftir að meirihluti Á – lista skiptinst í þrennt og nýr meirihluti bæjarstjórnar var myndaður 27. september.
Með endurskoðuðu uppgjöri janúar til ágúst 2009 lá vandinn á borðinu. Rannsóknarskýrsla eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga dags. 8. desember sl. staðfesti að vandinn væri mikill og á landsvísu algerlega einstakur og án fordæma.
Gert var samkomulag við eftirlitsnefndina dags. 17. desember sl. um tilteknar aðgerðir, bæði til tekjuauka og kostnaðarlækkunar.
Í skýrslu bæjarstjórnar um fjárhaldslegar aðgerðir, sem samþykkt var á 8 klukkutíma bæjarstjórnarfundi 26. janúar sl. er samantekt á vandanum, sem við er að glíma og einnig tillögur til lausnar. Tillögur bæjarstjórnar um aðgerðir til þess að rétta af bágan fjárhaginn voru afhentar eftirlitsnefndinni 27. janúar sl.
Skýrsla bæjarstjórnar tekur á staðreyndum með markvissum hætti, þar er ekki byggt á vonarpeningum eða óraunverulegum rekstrarkostnaðartölum eða tekjum sem ekki eru í hendi.
Hægt er að skoða skýrslu bæjarstjórnar á heimasíðunni alftanes.is.
Því miður er ljóst að ríkissjóður þarf að koma að málum, er varðar fé til lausnar fjárhagsvandanum, svo sem fram kemur í skýrslu bæjarstjórnar.
Þá kemur helst til greina að ríkissjóður kaupi eignir bæjarfélagsins, svo sem byggingarland eða hlutafé bæjarsjóðs í Fasteign, sem á íþróttamannvirkin.
Ljóst er að samningar frá í sumar við Búmenn og Ris ehf. voru byggðir á sandi og tóku alls ekkert mið af fjárhagsstöðunni. Vonandi finnst að þeim samningum annar aðili eða aðrir til rekstrar en Álftanes og að verkefnin verði endurskoðuð og jafnvel endurhönnuð. Megin mál er að bæjarsjóður Álftanes verði ekki grundvöllur uppbyggingarinnar, heldur verði verkefninu fundinn raunhæfur farvegur án meiriháttar skuldbindinga af hálfu bæjarsjóðs.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skilaði í gær tillögu til ráðherra sveitarstjórnarmála. Tillagan er að ráðherra skipi Álftanesi fjárhaldsstjórn skv. lögum.
Ráðherrann á eftir að taka afstöðu til tillögunnar, en mun væntanlega gera það í dag.
Með afgreiðslu tillögunnar mun ráðherra eyða óvissu og þá verður hægt að ganga hreint til verks á ljósum forsendum. Við verðum að líta á tillögu eftirlitsnefndar til ráðherra sem tækifæri til góðra og skilvirkra verka.
Við verðum að taka þátt í þeirri vinnu, sem framundan er á þessum forsendum, með opnum huga og leggja okkur fram um að sú vinna skili skjótum árangri. Þar sem markmið m.a. verður að vera að aukaálögur á Álftnesinga vari ekki lengur en út árið 2010.
Margir samverkandi þættir verða að spila saman, til þess að heildarlausn fáist, sem að mínu viti snúast um að heildarhagsmunir Álftnesinga verði í forgrunni í allri þeirri vinnu sem framundan er.
Sameining Álftaness við annað eða önnur bæjarfélög er meðal þessara samverkandi þátta.
Það er með öllu glórulaust líðskrum að halda því fram að á Álftanesi sé hægt að ætlast til að fé komi úr ríkissjóði, til lausnar fjárhagsvandanum sem við svo sannarlega komum okkur í og jafnframt að gera síðan ráð fyrir að Álftanes verði sjálfstætt sveitarfélag eftir fjárhaldsaðgerðir með aðkomu ríkissjóðs. Þá verði bara allt í góðu lagi hér á nesinu. Þessu hefur verið haldið fram í rökleysu líðskrums undanfarna daga, því miður. Slík framsetning er algerlega glórulaus.
Ekki er hægt að sýna fram á að hér verði rekið sjálfstætt sveitarfélag, svo hart hefur verið keyrt í belgingi fjárhags þessa litla og fjárhagslega viðkvæma bæjarfélags. Nú verður ekki undan því vikist að skoða m.a. sameiningarkosti, með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Enda er sá þáttur vinnunnar skv. samkomulagi við eftirlitsnefndina frá 17. desember sl.
Ég tel að mín reynsla og þekking á málefnum Álftaness muni nýtast vel við þá vinnu sem framundan er. Ég geri ekki ráð fyrir að í maí í vor verði kosið til heils kjörtímabils, heldur þurfi ný bæjarstjórn að axla ábyrgð á ævintýramennsku liðins kjörtímabils.
Guðmundur
Friday, February 5, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment